Utanríkis­ráðu­neytið hefur lengi átt gott samstarf við lands­nefnd UN Women á Íslandi og árið 2014 undirritaði fulltrúi Stjórnar­ráðs Íslands yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissátt­mála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Ári síðar var undirritaður samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UN Women á Íslandi fyrir tímabilið 2016-2018. Í byrjun árs 2019 var samningurinn framlengdur um ár og gildir því til loka árs 2019. Um er að ræða fjórða samninginn sem undirritaður er til þriggja ára í senn. Framlög til landsnefndarinnar nema samtals 39 milljónum á gildistíma samningsins, eða 13 m.kr. á ári.

Eitt helsta markmið samningsins er að stuðla að vitundarvakningu og sinna fræðslu- og upplýsingastarfi um störf UN Women, kynjajafnrétti og málefni kvenna í þróunarlöndum. Auk þess sem landsnefndin veitir almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á fjölþjóðlegum vettvangi og sinnir fræðslu um jafnréttismál fyrir sérfræðinga sem fara til starfa á vettvangi á vegum utanríkisráðuneytisins. Þá mun landsnefndin leggja aukna áherslu á að fræða almenning um þátttöku UN Women í mannúðarstarfi. Stofnunin hóf verkefnisstuðning á þeim vettvangi árið 2015 með miklum árangri, það felst í stuðningi við konur sem búa við neyð, áherslu á öryggi t.d. í flóttamannabúðum og fræðslu til samtaka sem sinna mannúðarstarfi svo fátt eitt sé nefnt.

Ráðu­neytið styður einnig markmið HeforShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women. Markmið verk­efnisins er að einn af hverjum fimm karl­mönnum á Íslandi gangi til liðs við átakið og styður ráðuneytið við herferð lands­nefnd­ar UN Women til að ná megi því markmiði.